Hoppa yfir valmynd
21. mars 2024 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fjármála- og efnahagsráðherra á þingi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna

Þórdís Kolbrún á fundi UN Women - myndMynd/UN Women

Íslensk stjórnvöld hafa metnað til að vera áfram í farabroddi til þess að hraða jafnrétti kynjanna. Ísland er ekki framarlega í jafnrétti kynjanna því hér sé sterkt samfélag, heldur er samfélagið sterkt vegna þess að það búi við jafnrétti kynjanna. Þetta kom fram í máli Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, fjármála- og efnahagsráðherra á viðburði UN Women í New York sem haldinn var í tengslum við þing kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna (CSW 68).

Á apríl á síðasta ári var gefinn út viðauki við sjálfbæran fjármögnunarramma ríkisins sem snýst eingöngu um fjármögnun í þágu kynjajafnréttis, ásamt því að huga að sjálfbærni og því að takmarka umhverfisáhrif. „Við sjáum mikla möguleika í sjálfbærri fjármögnun með áherslu á kynjajafnrétti, en viðaukinn gerir okkur kleift að gefa út hrein kynjaskuldabréf,“ bætti ráðherra við, en hingað til hefur ekkert ríki gefið út kynjaskuldabréf.

Ráðherra nefndi að Ísland hefði í síðustu viku í fyrsta sinn gefið út græn skuldabréf í evrum, útgáfan hefði gengið vel og eftirspurnin verið níu sinnum meiri en í útgáfunni. „Þó að þetta sé augljóslega frábrugðið kynjabréfum, gefur þetta fyrirheit um að slík markviss fjármögnun í þágu mikilvægra markmiða geti skipt máli.“

Þórdís Kolbrún fór á fundinum yfir stöðu Íslands þegar kemur að jafnréttismálum og rakti að Ísland hefið verið í efsta sæti Global Gender Gap Index World Economic Forum síðastliðin 14 ár. Ísland er enn eina landið sem hefur lokað meira en 90% af kynjabilinu sem vísitalan mældi. Ráðherra áréttaði að velmegun væri ekki forsenda þess að hægt sé að fjárfesta í jafnrétti, heldur væri jafnrétti forsenda velsældar Íslandi. „Við höfum lagt áherslu á að tryggja báðum foreldrum greiðslur í fæðingarorlofi og hvatt feður til að taka jafnan þátt í umönnun ungra barna sinna, sem hefur stuðlað að meira jafnrétti innan heimilisins. Þetta er sérstaklega mikilvægt þar sem rannsóknir sýna að foreldrahlutverkið er stór skýringarþáttur þegar kemur að launamun kynjanna.“

Ráðherra sagði að lokum að hún væri þakklát þeim konum sem hefðu rutt brautina fyrir hennar kynslóð. „Og ég hef mikinn áhuga á að halda því starfi áfram fyrir komandi kynslóðir,“ sagði fjármála- og efnahagsráðherra.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum