Orðskýringar

A-hluti ríkissjóðs

Rekstri á vegum ríkisins er skipt í fimm hluta: A-, B-, C-, D- og E-hluta með tilliti til þess hver aðild ríkisins er. A-hlutinn er umfangsmestur en til hans heyrir hin eiginlega starfsemi ríkissjóðs sem fjallað er um í daglegri umræðu. Þar er um að ræða rekstur stofnana ríksins sem eru að stærstum hluta fjármagnaður af skatttekjum ríkissjóðs þótt stofnanir geti einnig selt þjónustu og aflað þannig tekna. Til A-hluta heyra ráðuneyti, ríkisstofnanir, ýmsir styrktarsjóðir og tilfærslur til B- og C-hlutans, sveitarfélaga, einstaklinga, samtaka og atvinnuvega. Sjá lög nr. 88/1997 um fjárreiður ríkisins.

Aðflutningsgjöld

Aðflutningsgjöld eru tollar svo og aðrir skattar og gjöld sem ber að greiða við tollmeðferð vöru. Dæmi um slík gjöld eru vörugjöld.

Aðrar rekstrartekjur

Lögbundnar tekjur fyrir veitta þjónustu eða starfsemi á vegum ríkisins. Einnig tekjur af eignum, viðurlögum og sektum. Til dæmis tekjur af vottorðum og eftirliti.

Afkoma ríkissjóðs

Reikningar ríkisins eru gerðir upp í lok hvers árs. Þegar afkoman er mæld er venjan að líta á afkomuna í heild og draga síðan frá óreglulega liði, bæði gjalda- og teknamegin sem skekkja samanburð milli ára og við fjárlögin. Dæmi um óreglulega liði eru tekjur af eignasölu, hækkun gjalda vegna lífeyrisskuldbindinga og afskriftir skattkrafna.

Áfengisgjald

Öllum sem flytja inn eða framleiða áfengi hér á landi til sölu eða vinnslu ber að greiða áfengisgjald.

Almannatryggingar

Almannatryggingar eru opinbert tryggingakerfi sem allir landsmenn eiga aðild að og greitt er fyrir með sköttunum, bótaréttur er háður aldri bótaþega, búsetu hér á landi og tekjuöflunarhæfi, undir almannatryggingar falla lífeyristryggingar eins og ellilífeyrir og örorkulífeyrir, slysatryggingar eins og sjúkrahjálp og örorkubætur og sjúkratryggingar eins og sjúkrakostnaður og sjúkradagpeningar.

Almenn skattskylda

Almenn skattskylda er einnig kölluð ótakmörkuð skattskylda. Almenn skattskylda byggir á tilteknum tengslum skattaðila við Ísland. Á þeim sem bera almenna skattskyldu á Íslandi hvílir skylda til að greiða skatt af öllum tekjum sínum óháð því hvar þeirra er aflað í heiminum og öllum eignum sínum óháð staðsetningu þeirra. Taka ber þó tillit til tvísköttunarsamninga sem ríkisstjórnin hefur gert við stjórnir annarra ríkja til að koma í veg fyrir tvísköttun á tekjur og eignir. Ákvæði slíkra samninga geta valdið því að tekjur, sem án slíkra samninga væru skattlagðar hér á landi, eru það ekki. Þær eru þó alltaf framtalsskyldar.

Árangursstjórnun í ríkisrekstri

Árangursstjórnun er samheiti yfir stjórnunaraðferðir sem miða að því að bæta árangur í rekstri með skipulegum hætti. Lögð er áhersla á að skilgreina markmið sem lýsa því í hverju árangur stofnunar er fólginn, unnið er samkvæmt áætlunum, framvinda mæld og staðið skipulega að því að bæta þjónustuna.

Atvinnuleysi

Hlutfall þeirra sem ekki hafa vinnu af fjölda þeirra sem eru á vinnumarkaði. Utan vinnumarkaðar eru þeir sem eru á vinnualdri en eru í skóla eða á framfæri hins opinbera. Atvinnuleysi getur verið skráð hjá vinnumiðlunum en ýmsir eru atvinnulausir þar fyrir utan. Stundum er talað um dulið atvinnuleysi, einkum þegar fólk er í raun ekki að sinna fullu starfi.

Auðlegðarskattur

Auðlegðarskattur er lagður á hreina eign framteljanda, þ.e. allar eignir að frádregnum öllum skuldum. Skatturinn er lagður á gjaldárin 2010, 2011, 2012, 2013 og 2014.

 • Skatthlutfall við álagningu 2010 - 1,25% auðlegðarskattur á eign einhleypings yfir 90.000.000 kr. og 120.000.000 kr. eign hjóna og samskattaðra.
 • Skatthlutfall við álagningu 2011 - 1,50% auðlegðarskattur á eign einhleypings yfir 75.000.000 kr. og 100.000.000 kr. eign hjóna og samskattaðra.
 • Skatthlutfall við álagningu 2013 og 2014 - 1,50% auðlegðarskattur á eign einhleypings yfir 75.000.000 kr. að 150.000.000 kr. og á eign hjóna yfir 100.000.000 kr. að 200.000.000 kr. Af því sem umfram er 150.000.000 kr. hjá einhleypings og 200.000.000 kr. af samanlögðum auðlegðarskattsstofni hjóna greiðast 2,00%.

Sjá einnig um viðbótarauðlegðarskatt.

Aukafjárveiting

Fjárveiting sem Alþingi ákveður í fjáraukalögum sem yfirleitt eru samþykkt einu sinni á ári fyrir yfirstandandi ár í tengslum við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár. Aukafjárveitingar eiga að heyra til undantekninga og eru í flestum tilvikum til þess að mæta útgjöldum vegna atvika sem ekki var hægt að sjá fyrir þegar fjárlög voru sett.

Bandormur

Bandormur er heiti sem gjarnan er notað þegar ráðist er í breytingar sem kalla á að mörgum lögum sé breytt samtímis og flutt er eitt frumvarp til laga um breytingu á mörgum lögum. Hér áður voru bandormar oft lagðir fram þegar gripið var til margháttaðra efnahagsaðgerða en á síðari árum eru bandormar algengari þegar um er að ræða skipulagsbreytingar, t.d. á stjórnkerfinu.

Bifreiðagjald

Bifreiðagjald leggst á öll vélknúin ökutæki sem skráð eru hér á landi. Ekki skiptir máli hvort um bensín-, dísel- eða rafmagnsknúin ökutæki er að ræða. Fjárhæð bifreiðagjalds er ákveðin með lögum og fer eftir þyngd ökutækjanna

Bensíngjald

Bensíngjald er vörugjald sem er föst krónutala á hvern seldan bensínlítra. Bensíngjald skiptist í almennt og sérstakt bensíngjald og rennur almenna bensíngjaldið til ríkissjóðs en sérstaka vörugjaldið fer til Vegagerðarinnar til að standa undir framkvæmdum og viðgerðum á vegakerfi landsins.

B-hluti ríkissjóðs

Rekstri á vegum ríkisins er skipt í fimm hluta: A-, B-, C-, D- og E-hluta með tilliti til þess hver aðild ríkisins er. Til B-hluta heyra fyrirtæki, önnur en hlutafélög, sem starfa á markaði og byggja afkomu sína í aðalatriðum á sölu til almennings og fyrirtækja. Yfirleitt miðast verðlagning vöru og þjónustu, sem þau framleiða og selja við að standa undir kostnaði af starfseminni. B-hluta fyrirtæki njóta meira sjálfstæðis í rekstri en A-hluta stofnanir. Ríkið rekur sjö B-hluta fyrirtæki, þar á meðal smásöluverslunina ÁTVR og rannsóknafyrirtækið Íslenskar orkurannsóknir.

Bundin útgjöld

Við fjárlagagerð er gerður munur á útgjöldum sem Alþingi, ríkisstjórn og fjármála- og efnahagsráherra hafa skuldbundið ríkið til að bera (bundin útgjöld) og öðrum tillögum um útgjöld. Bundnum útgjöldum er aðeins breytt ef viðkomandi lög eru endurskoðuð.

Búnaðargjald

Búnaðargjald er gjald sem greitt er í ríkissjóð af búvöruframleiðendum í ákveðnum greinum sem eru jafnframt virðisaukaskattskyldir.

C-hluti ríkissjóðs

Rekstri á vegum ríkisins er skipt í fimm hluta: A-, B-, C-, D- og E-hluta með tilliti til þess hver aðild ríkisins er. Til C-hluta heyra lánastofnanir ríkisins sem yfirleitt starfa nokkuð sjálfstætt. Ríkið ábyrgist skuldbindingar sumra þeirra en ekki allra. Dæmi: Lánasjóður íslenskra námsmanna og Íbúðalánasjóður.

D- og E-hluti ríkissjóðs

Rekstri á vegum ríkisins er skipt í fimm hluta: A-, B-, C-, D- og E-hluta með tilliti til þess hver aðild ríkisins er. Til D-hluta heyra fjármálastofnanir ríkisins þar á meðal Seðlabanki Íslands og Viðlagatrygging Íslands. Til E-hluta heyra sameignar- og hlutafélög sem ríkið á að hálfu eða meira, þar á meðal Íslandspóstur hf.

Eignarskattur

Eignarskattur var lagður niður árið 2005. Eignaskattur var skattur á hreina eign, þ.e. á verðmæti eigna umfram skuldir. Allir þeir sem heimilisfastir voru hér á landi þurftu að greiða eignarskatt af öllum eignum sínum að frádregnum skuldum nema þeir sem voru undanþegnir skattskyldu samkvæmt skattalögum eða öðrum lögum. Eignarskattur miðaðist við eign í árslok. Þeir sem áttu eignir hér á landi þurftu að greiða eignarskatt jafnvel þótt þeir væru ekki heimilisfastir hér á landi.

Einkaneysla

Vara og þjónusta sem heimilin nota yfir árið, svo sem matur, fatnaður, skemmtanir og leiga fyrir húsnæði.

Einkaframkvæmd og einkarekstur

Einkaframkvæmd/einkarekstur felst í því að ríkið gerir samning við einkaaðila um að veita tiltekna þjónustu eða annast tiltekna framkvæmd. Venjulega er um að ræða verkefni sem krefjast umtalsverðra fjarfestinga og samningstími er langur. Í samningum milli aðila um einkarekstur og einkaframkvæmd er kveðið á um hvernig þeir hyggjast skipta með sér fjárhagsáhættu af viðkomandi verkefnum.

Einkavæðing

Einkavæðing nefnist það þegar fyrirtæki í ríkiseigu eða eignarhlutur ríkisins í fyrirtæki er seldur í einu lagi í einu eða nokkrum áföngum á tilteknum tíma til eins aðila eða hóps aðila sem starfa á einkamarkaði.

Embættismaður

Aðeins þeir starfsmenn ríkisins sem taldir eru upp í 22. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins teljast, embættismenn. Embættismenn eru skipaðir í embætti til 5 ára í senn.

Erindisbréf forstöðumanns

Ráðherra setur sérhverjum forstöðumanni erindisbréf þar sem tilgreind skulu helstu markmið í rekstri stofnunar og verkefni hennar til lengri og skemmri tíma og hverjar skuli vera skyldur hans í þeim efnum. Jafnframt kemur fram hver verkaskipting sé á milli stjórnar stofnunar og forstöðumanns og tilgreind helstu verkefni forstöðumanns.

Fjáraukalög

Sjá undir aukafjárveiting

Fjárheimild

Fjárheimild er heimild sem veitt er í fjárlögum til að skuldbinda ríkissjóð á tilteknu ári. Við hana getur bæst heimild í fjáraukalögum og millifærslur af öðrum fjárlagaliðum. Að auki geta bæst við ónotaðar fjárheimildir frá fyrri árum eða frá dragast gjöld umfram fjárheimild fyrra árs.

Fjárfesting

Fjárfesting er það kallað þegar fjármunum er ráðstafað til einhvers sem hægt er að nota til lengri tíma, til dæmis til að byggja hús eða kaupa vélar og tæki. Bæði hið opinbera og fyrirtækin geta fjárfest en kaup á íbúðarhúsnæði er það eina sem talið er til fjárfestinga hjá heimilum landsins í þjóðhagsreikningum.

Fjárlagaár, fjárhagsár

Fjárlög eru samþykkt fyrir eitt almanaksár í senn, það er að segja fyrir tímabilið frá 1. janúar til 31. desember og nefnist það fjárlagaár eða fjárhagsár.

Fjárlagafrumvarp

Frumvarp sem fjármála- og efnahagsráðherra leggur árlega fram á Alþingi um fjárlög fyrir næsta ár. Sjá einnig fjárlagagerð og fjárlög. Fjárlagafrumvarp sýnir áætlanir um tekjur og gjöld ríkissjóðs fyrir hvert það ár sem í hönd fer. Þar er leitað heimilda til hvers konar fjárráðstafana, svo sem lántöku, ríkisábyrgða og heimilda til að kaupa og selja fasteignir.

Fjárlagagerð

Vinna við undirbúning fjárlaga. Fyrri hluti vinnunnar felst í gerð fjárlagafrumvarps undir verkstjórn fjármála- og efnahagsráðuneytisins með þátttöku ríkisstjórnar, annarra ráðuneyta, ríkisstofnana og fleiri. Seinni hlutinn er meðferð frumvarpsins á Alþingi, meðal annars í fjárlaganefnd.

Fjárlagaliður

Fjárlögunum er skipt í liði í samræmi við ábyrgðarsvið og hefur hver sitt númer. Fyrstu tveir tölustafirnir í númerinu tákna ráðuneyti. Þannig hefur til dæmis forsætisráðuneytið númerið 01 og er forsætisráðherra ætlað að sjá til þess að útgjöld til verkefna á vegum þess séu ekki hærri en fjárheimild er fyrir. Næstu þrír tölustafirnir tákna stofnun eða verkefni. Til dæmis 01-271 Ríkislögmaður og ber forstöðumaður þeirrar stofnunar ábyrgð á rekstri hennar gagnvart forsætisráðherra.

Fjárlaganefnd

Ein af fastanefndum Alþingis og sú fjölmennasta. Til fjárlaganefndar er m.a. vísað frumvörpum til fjárlaga, fjáraukalaga og lokafjárlaga (laga um samþykkt á ríkisreikningi) þegar fyrstu umræðu um þau er lokið. Frumvarpi til fjárlaga er vísað aftur til nefndarinnar að lokinni 2. umræðu. Fjárlaganefnd fer einnig með eftirlit löggjafarvaldsins gagnvart framkvæmdavaldinu er varðar fjárstjórn ríkisins.

Fjárlög

Samkvæmt stjórnarskránni má ekki greiða neitt úr ríkissjóði nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum. Stjórnarskráin kveður einnig á um að leggja skuli fyrir hvert reglulegt Alþingi frumvarp til fjárlaga fyrir það fjárhagsár sem í hönd fer. Í frumvarpinu skal vera fólgin greinargerð um tekjur ríkisins og gjöld. Jafnframt er veitt heimild í fjárlögum til að taka lán, skuldbinda ríkið á annan hátt og selja fasteignir í eigu þess. Fjárlög eru því rekstraráælun ríkisins eða fyrirmæli Alþingis um hvar og hvernig eigi að sækja fé og hvernig eigi að nota það.

Fjármagnskostnaður

Kostnaður vegna vaxta- og lántökugjalda af skuldum.

Fjármagnstekjuskattur

Einstaklingar greiða 20% tekjuskatt af fjármagnstekjum sínum sem ekki stafa af atvinnurekstri. Fjármagnstekjum má skipta í fjóra flokka sem eru: Arður, leigutekjur, söluhagnaður og vaxtatekjur.

Skatthlutfall:

 • 10% frá 1. janúar 1997 til 30. júní 2009
 • 15% frá 1. júlí til 31. desember 2009
 • 18% frá 1. janúar 2010 til 31. desember 2010
 • 20% frá 1. janúar 2011

Af vaxtatekjum og arði er dregin staðgreiðsla fjármagnstekjuskatts, en skattur af söluhagnaði og leigutekjum er greiddur eftirá. Á fjármagnstekjur er ekki lagt útsvar og þær hafa engin áhrif á þrepaskiptingu tekjuskatts. Hins vegar teljast þær með öðrum tekjum til stofns við útreikning vaxtabóta og barnabóta.

Ekki er greiddur fjármagnstekjuskattur af heildarvaxtatekjum að fjárhæð 100.000 kr. á ári hjá hverjum manni, þótt dreginn hafi verið staðgreiðsla fjármagnstekjuskatts af vaxtatekjunum. Þá er ekki greiddur fjármagnstekjuskattur af 30% af tekjum af útleigu íbúðarhúsnæðis. Þessi frítekjumörk eru ákvörðuð í álagningu á grundvelli skattframtals.

Fjárreiðulög

Lög frá Alþingi sem fjalla um ríkisreikning, ársreikning stofnana, frumvarp til fjárlaga, framkvæmd fjárlaga og fjáraukalög. Sjá lög um fjárreiður ríkisins nr. 88/1997.

Fjársýsluskattur

Fjármálafyrirtæki, verðbréfafyrirtæki og tryggingafélög bera fjársýsluskatt. Opinberar stofnanir sem hafa lögbundið hlutverk og eru að fullu í eigu opinberra aðila eru undanþegnar skattskyldu, þó að frátöldum Íbúðalánasjóði.

Stofn til fjársýsluskatts eru allar tegundir launa og þóknana, nema eftirlauna- og lífeyrisgreiðslur og greiðslur vegna fæðingarorlofs.

Fjárveiting

Heimild í fjárlögum eða fjáraukalögum til að skuldbinda ríkið fjárhagslega á fjárlagaárinu. Heimildin getur verið bundin skilyrðum, t.d. skilyrði um að tekna sé aflað á móti skuldbindingunni. Yfirleitt felur fjárveiting einnig í sér heimild til að greiða skuldbindinguna á árinu, þ.e. greiðsluheimild. Sjá einnig fjárheimild.

Frumgjöld

Frumgjöld (e. primary expenditure) ríkissjóðs samkvæmt skilrgreiningu í fjárlögum eru öll gjöld ríkissjóðs nema vaxtagjöld eða heildargjöld ríkissjóðs að frádregnum vaxtagjöldum.

Frumjöfnuður

Frumjöfnuður (e. primary balance) ríkissjóðs samkvæmt skilrgreiningu í fjárlögum eru frumtekjur að frádregnum frumgjöldum ríkissjóðs.

Frumtekjur

Frumtekjur (e. primary revenue) ríkissjóðs samkvæmt skilrgreiningu í fjárlögum eru allar tekjur ríkissjóðs nema vaxtatekjur eða heildartekjur ríkissjóðs að frádregnum vaxtatekjum.

Gistináttaskattur

Gistináttaskattur er sérstakur skattur sem lagður er á sölu gistingar. Skatturinn var tekinn upp 1. janúar 2012 og er lagður á hverja selda gistináttaeiningu. Slík eining er skilgreind sem leiga á gistiaðstöðu í allt að einn sólarhring. Með gistiaðstöðu er átt við herbergi, húsnæði eða svæði sem leigt er út í þeim tilgangi að þar sé dvalið yfir nótt, að svefnaðstaða sé fyrir hendi eða hægt sé að koma henni fyrir og leigan sé almennt til skemmri tíma en eins mánaðar.

Greiðsluheimild

Heimild til að greiða tiltekna peningafjárhæð úr ríkissjóði á fjárlagaári. Það sem ekki hefur verið greitt út í árslok, fellur niður nema veitt sé heimild í lokafjárlögum til að greiða það sem eftir stendur á næsta ári.

Greinargerð lagafrumvarps

Með öllum lagafrumvörpum fylgir greinargerð eða athugasemdakafli þar sem er útskýrt hvers vegna frumvarpið er samið og hverju það breytir ef það er samþykkt sem lög frá Alþingi.

Grænn ríkisrekstur

Grænn ríkisrekstur (samheiti: vistvænn eða umhverfisvænn ríkisrekstur) er sá rekstur sem hefur minni neikvæð áhrif á umhverfið en annar sambærilegur rekstur. Í rekstri eru umhverfisþættir sem hafa gagnkvæma verkun á umhverfið, svo sem samgöngur, orkunotkun, efnanotkun og innkaup. Markviss stjórnun þessara þátta, með stuðningi umhverfisstefnu og vinnu að markmiðum og aðgerðaráætlun, dregur úr neikvæðum áhrifum á umhverfið.

Grænt bókhald

Grænt bókhald er efnisbókhald þar sem fram koma upplýsingar um hvernig innkaupum á rekstrarvöru og þjónustu er háttað, aðallega í formi tölulegra upplýsinga. Grænt bókhald gefur yfirsýn yfir magntölur í rekstri og vísar þannig á tækifæri til að draga úr umhverfisáhrifum.

Hagræn skipting útgjalda

Umsvif ríkisins hafa ýmis áhrif á efnahagsstarfsemina. Sú venja hefur myndast í alþjóðlegum samanburði að skipta útgjöldum ríkisins í þrjá þætti með tilliti til þessa og er talað um hagræna skiptingu í því sambandi. Í fyrsta lagi beinan rekstur ríkisins og stofnana þess. Í öðru lagi tilfærslur fjármagns úr ríkissjóði til einstaklinga og fyrirtækja, svonefndar neyslu- og rekstrartilfærslur. Í þriðja og síðasta lagi meiriháttar viðhalds- og stofnkostnað.

Hagvöxtur

Hagvöxtur mælir aukningu landsframleiðslu á ákveðnu tímabili eftir að tekið hefur verið tillit til verðbólgu.

Handbært fé frá rekstri

Handbært fé frá rekstri ríkissjóðs sýnir það fé sem regluleg starfsemi ríkisins skilar á hverju tímabili. Handbært fé sýnir í raun mismun á inn- og útgreiðslum ríkissjóðs á tímabilinu. Handbært fé ríkissjóðs er frábrugðið handbæru fé í rekstri fyrirtækja að því leyti að stofnkostnaður á vegum ríkisins er gjaldfærður að fullu á tímabilinu, en ekki færður til eignar og afskrifaður.

Hátekjuskattur

Hátekjuskattur var afnuminn árið 2006. Var sérstakur tekjuskattur manna, stundum nefndur hátekjuskattur, var 4% tekjuskattur sem lagður var á tekjur einstaklings umfram ákveðið tekjumark til viðbótar almennum tekjuskatti. Hjá hjónum og samsköttuðu sambúðarfólki var hátekjuskattur lagður á samanlagðar tekjur þeirra umfram tvöfalda viðmiðunarupphæð einstaklings.

Heildarjöfnuður

Heildarjöfnuður er heildartekjur að frádregnum heildargjöldum. Heildarjöfnuður er jákvæður þegar heildartekjur eru hærri en heildargjöld en þá er oft talað um afgang en neikvæður þegar heildargjöld eru hærri en heildartekjur en þá er oft talað um halla.

Heimildargrein fjárlaga

Fjárlögin skiptast í nokkrar lagagreinar, yfirleitt sex eða sjö að tölu. Í einni þeirra er fjallað um heimildir fjármála- og efnahagsráðherra til að gefa eftir gjöld, selja húseignir, jarðir, lóðir og hlutabréf, kaupa og leigja fasteignir.

Hið opinbera

Formleg skilgreining á hinu opinbera er ríki, sveitarfélög og almannatryggingar. Sú skipting er notuð af alþjóðlegum stofnunum sem bera saman þjóðhagsstærðir og þjóðarbú. Sumir segja hins vegar að almannatryggingar séu hluti af ríkinu og því sé hið opinbera í raun aðeins tvennt, þ.e. ríki og sveitarfélög, líkt og í almennri notkun orðsins.

Innkaupakort ríkisins

Greiðslukort gefin út til ríkisstofnana til notkunar við kaup á vöru og þjónustu sem bera lítinn kostnað. Tilgangurinn með kortinu er að einfalda smáinnkaup ríkisins og lágmarka kostnað vegna þeirra.

Innheimtumenn ríkissjóðs

Tollstjórinn í Reykjavík fer með innheimtu skatta og annarra tekna ríkissjóðs í Reykjavíkurumdæmi, þ.e. í Reykjavík, á Seltjarnarnesi, í Mosfellsbæ og í Kjósarhreppi. Í öðrum umdæmum fara sýslumenn með innheimtu tekna ríkissjóðs.

Innskattur

Innskattur er sá virðisaukaskattur sem rekstraaðili þarf að borga öðrum þegar hann kaupir vöru og þjónustu vegna rekstrar. Þennan innskatt má rekstraraðili oftast draga frá þeim virðisaukaskatti sem hann hefur sjálfur innheimt (útskatti).

IPA-styrkir

IPA (e. Instrument for Pre-Accession Assistance) er samheiti yfir aðstoð sem Evrópusambandið veitir ríkjum í umsóknarferli til að undirbúa aðild og takast á við skuldbindingar er tengjast aðild að sambandinu á árunum 2007 til 2013.

Jaðarskattar

Með jaðarsköttum er átt við það hversu stór hluti af síðustu krónunni sem fólk vinnur sér inn fer í skatt til hins opinbera. Ýmsar bætur sem hið opinbera greiðir fólki ráðast af tekjum þess. Hugsunin er þá yfirleitt sú að þeir sem eru undir ákveðnum tekjum fái greiðslur frá ríkinu en að fjárhæðin lækki eftir því sem fólk á meiri eignir eða aflar sér meiri tekna sjálft. Tekjutenging bóta getur leitt til þess að viðbótartekjur sem fólk vinnur sér inn lækki bætur og virki eins og skattur. Jaðarskattur sýnir þannig hve stóran hluta af viðbótartekjum viðkomandi heldur eftir.

Kaupmáttur ráðstöfunartekna

Mælikvarði á það hvað hægt er að kaupa fyrir þá fjármuni sem heimilin hafa til ráðstöfunar. Þróun hans er fundin með því að deila með vístölu neysluverðs í vísitölu ráðstöfunartekna. Ef ráðstöfunartekjur vaxa hraðar en neysluverð, er kaupmáttur að vaxa.

Kílómetragjald

Kílómetragjald er krónutala á hvern ekinna kílómetra sem leggst á eigendur ökutækja þyngri en 10 tonn. Tekjur ríkisins af kílómetragjaldi renna til Vegagerðarinnar til að standa undir framkvæmdum og viðgerðum á vegakerfi landsins.

Kolefnisgjald

Greitt er í ríkissjóð kolefnisgjald af fljótandi jarðefnaeldsneyti.  Með fljótandi jarðefnaeldsneyti er átt við gas- og díselolíu, bensín, flugvéla- og þotueldsneyti og brennsluolíu. 

Kynjasamþætting

Kynjasamþætting (skv. lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008) felur í sér að skipuleggja, bæta, þróa og leggja mat á stefnumótunarferli þannig að sjónarhorn kynjajafnréttis sé á öllum sviðum fléttað inn í stefnumótun og ákvarðanir þeirra sem alla jafna taka þátt í stefnumótun í samfélaginu.

Kynjuð hagstjórn og fjárlagagerð

Kynjuð hagstjórn og fjárlagagerð snýst um að sameina þekkingu á gerð fjárlaga og þekkingu á kynjamisrétti með það að leiðarljósi að stuðla að hagkvæmri og réttlátri dreifingu opinberra fjármuna. Evrópuráðið skilreinir kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð sem það ferli að beita kynjasamþættingu á fjárlagaferlið. Það felur í sér að kynjað mat er lagt á fjárlögin, kynjasjónarmið samofin í öll stig fjárlagaferlisins og tekju- og útgjaldaliðir endurskipulagðir með það að markmiði að stuðla að kynjajafnrétti.

Landsframleiðsla

Landsframleiðslu er allt það sem framleitt er hérlendis burtséð frá því hvort framleiðslan er í eigu íslenskra eða erlendra aðila.

Landsframleiðsla er mælikvarði á það hversu mikið er framleitt af tilbúinni vöru og þjónustu í hagkerfinu. Vörur sem notaðar eru til að framleiða aðrar vörur eru ekki taldar með til þess að forðast tvítalningu.

Landsframleiðsla er notuð sem mælikvarði á velferð þjóða og breyting á landsframleiðslu milli ára, mæld í prósentum, kallast hagvöxtur.

Landsframleiðsluna er hægt að mæla og sýna á nokkra vegu en algengast er að hún sé sett fram samkvæmt svokallaðri ráðstöfunaraðferð. Hún byggist á því að gera grein fyrir hvernig þeim fjármunum sem verða til í hagkerfinu er ráðstafað. Einfaldasta form þjóðhagsreikningsins er þetta:

Verg landsframleiðsla = einkaneysla + samneysla + fjárfesting + birgðabreyting + útflutningur - innflutningur

Langtímaáætlun í ríkisfjármálum

Áætlun sem birt er í fjárlagafrumvarpi um þróun ríkisfjármála fjögur ár fram í tímann. Áætlunin er byggð á ýmsum forsendum og er að hluta til framreikningur eða spá um ríkisfjármál og að hluta til lýsir hún stefnumörkun og markmiðum stjórnvalda.

Lánsfjárafgangur

Sjá undir lánsfjárjöfnuður.

Lánsfjárjöfnuður

Lánsfjárjöfnuður mælir það fé sem er til ráðstöfunar fyrir ríkissjóð til greiðslu lána. Lánsfjárjöfnuður getur verið bæði jákvæður og neikvæður. Lánsfjárþörf er neikvæður lánsfjárjöfnuður og er notuð til að lýsa þörf ríkissjóðs fyrir lánsfé til að fjármagna greiðsluhalla í rekstri ríkissjóðs, afborganir af lánum og rekstrarbreytingar. Lánsfjárafgangur er hins vegar jákvæður lánsfjárjöfnuður og er mælikvarði á hversu mikið fé ríkissjóður hefur til að greiða niður skuldir.

Lánsfjárþörf

Sjá undir lánsfjárjöfnuður.

Líftímakostnaður

Líftímakostnaður er innkaupaverð vöru auk kostnaðar við rekstur, viðhald og förgun. Rekstur vörunnar getur verið margfalt dýrari en innkaupaverð vörunnar. Mikilvægt er að taka mið af líftímakostnaði í innkaupaferli. Þetta á til dæmis við um prentara og bíla.

Lokafjárlög

Þegar ríkisreikningur fyrir næstliðið reikningsár hefur verið endurskoðaður, leggur fjármála- og efnahagsráðherra hann fram á Alþingi. Þetta skal gera innan tveggja vikna frá að þing kom saman að hausti. Með reikningnum á að fylgja frumvarp til lokafjárlaga honum til staðfestingar. Í því skal leita heimilda til að gera upp skuldir og ónotaðar fjárveitingar sem ekki eru fluttar milli ára.

Markaðar tekjur

Tekjur af sumum sköttum ríkisins eru beinlínis ætlaðar til að standa undir tilteknum útgjöldum. Þannig er til dæmis ákveðið að mestallar tekjur af svonefndu bensíngjaldi, sem er sérstök tegund af vörugjaldi, renni til vegagerðar. Sömuleiðis er fyrirfram ákveðið í lögum til hvaða þátta tekjur af tryggingagjaldi skuli renna.

Neysluskattar

Skattar sem lagðir eru á vöru og þjónustu og greitt er fyrir í gegnum neyslu og veltu á tiltekinni vöru eða þjónustu. Skattar á vöru og þjónustu skiptast í grófum dráttum í tvennt:

1. Skatta á viðskipti með vöru og þjónustu, svo sem virðisaukaskatt, vörugjöld og aðflutningsgjöld

2. Neyslu- og leyfisgjöld, svo sem bifreiðagjald, þungaskatt og ýmis leyfis- og skráningar- og eftirlitsgjöld.

Olíugjald

Olíugjald er vörugjald sem er föst krónutala á hvern seldan lítra af dísilolíu. Olíugjald er eingöngu lagt á olíunotkun vegna ökutækja sem nota vegakerfi landsins. Tekjur ríkisins af olíugjald renna til Vegagerðarinnar til að standa undir framkvæmdum og viðgerðum á vegakerfi landsins.

Opinber gjöld

Annað orð yfir skatta til ríkissjóðs og sveitarsjóða. Sköttum þessum er ætlað að standa straum af kostnaði við sameiginlega þjónustu í þjóðfélaginu.

Opinber innkaup

Með opinberum innkaupum er átt við innkaup ríkis og sveitarfélaga á vöru og þjónustu. Lög um opinber innkaup móta sérstakar reglur um hvernig standa að innkaupum hins opinbera. Almenn regla er um að innkaup eigi sér stað að undangengnu útboði og/eða tilteknum rammasamningum sem Ríkiskaup annast fyrir hönd hins opinbera.

Opinber starfsmaður

Opinber starfsmaður merkir yfirleitt hvern þann sem hefur með höndum stjórnsýslu á vegum hins opinbera, hvort heldur er hjá ríki, sveitarfélagi eða opinberri stofnun. Sjá einnig Ríkisstarfsmenn til aðgreiningar frá opinberum starfsmönnum.

Opinberar framkvæmdir

Með opinberri framkvæmd er átt við gerð, viðhald eða breyting á mannvirki sem kostuð er af ríkissjóði að nokkru eða öllu leyti, enda nemi áætlaður kostnaður ríkissjóðs a.m.k. 5 millj. kr.

Opinberir aðilar, stjórnsýsluaðilar

Opinber stjórnsýsla er innt af hendi í nafni ríkis, sveitarfélaga og ýmissa sérstakra opinberra stofnana, svonefndra stjórnsýsluaðila eða opinberra aðila. Dæmi: Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Reykjavíkurborg og Seðlabankinn

Ónýtt fjárheimild

Fjárheimild sem að fengnu samþykki hlutaðeigandi ráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra er heimilt að geyma í lok reikningsárs. Með sama hætti er heimilt að draga skuldir frá fyrra ári frá fjárveitingum ársins.

Peningamálastefna

Viðleitni ríkisvaldsins til að hamla gegn verðbólgu og halda henni innan tiltekinna marka. Seðlabanki Íslands hefur þetta verkefni. Til þess notar bankinn vexti í viðskiptum sínum við lánastofnanir en hann getur einnig átt viðskipti á millibankamarkaði með gjaldeyri í því augnamiði að hafa áhrif á gengi krónunnar og þar með verðlag. Verðbólgumarkmið bankans er 2½% verðbólga á 12 mánuðum, mæld í vísitölu neysluverðs en víki verðbólgan meira en 1½% í aðra hvora áttina frá þessu markmiði er Seðlabankinn skyldugur til að gera ríkisstjórninni opinberlega grein fyrir orsökum fráviksins og leiðum til úrbóta.

Persónuafsláttur

Persónuafsláttur er hluti af tekjuskattskerfi einstaklinga. Með persónuafslætti er átt við sérstakan afslátt af tekjuskatti vegna launa einstaklinga. Upphæðin er föst krónutala og myndar svonefnd skattleysismörk. Makar geta nýtt sér ónýttan afslátt hvors annars. Frá árinu 2007 á persónuafslátturinn að breytast í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs.

Rafræn skilríki

Vottorð á rafrænu formi sem tengir sannprófunargögn við vottorðshafa og staðfestir hver hann er. Í dreifilyklaskilríkjum er dreifilykill vottorðshafa ásamt öðrum gögnum, dulritað með einkalykli vottunarstöðvar, sjá skilríki.is.

Rammasamningur

Samningur um innkaup fyrir ríkisstofnanir sem Ríkiskaup gerir að undangengnu útboði um samræmd innkaup fyrir hönd ríkisins. Auglýst er útboð í einhvern flokk innkaupa og skila bjóðendur inn tilboðum um verð og magn. Gengið er til samninga við þá sem hagstæðast bjóða.

Rammafjárlagagerð

Með rammafjárlagagerð er átt við ákveðið vinnulag við undirbúning fjárlaga. Helsta einkenni vinnunnar er það að snemma í ferlinu marka stjórnvöld ákveðna stefnu og setja töluleg markmið sem afmarka meðal annars það hversu mikil útgjöld ríkisins mega vera í heildina og hvernig þau eiga að skiptast á milli ráðuneyta og í sumum tilvikum á milli málaflokka útgjalda í samræmi við stjórnarstefnuna. Þannig fær hvert ráðuneyti sinn útgjaldaramma og þarf að skipta framlögum samkvæmt honum á milli stofnana sinna og verkefna.

Rammafjárlög

Þegar talað er um rammafjárlög er átt við að ráðuneyti og ríkisstofnanir hafi umtalsvert svigrúm til að ráðstafa fjárveitingum eins og stjórnendur þeirra telja að gagnist markmiðum starfseminnar best. Þannig er til dæmis ekki ákveðið í fjárlögunum hversu stórum hluta af fjárveitingu megi verja til að greiða laun og hvað eigi að nota til kaupa á tölvum, heldur er það hlutverk stjórnenda að taka slíkar ákvarðanir enda efni þeir ekki til meiri útgjalda en fjárheimild er fyrir. Stjórnendur hafa sömuleiðis svigrúm til að færa peninga milli viðfangsefna í rekstrinum, t.d. milli eftirlits og fræðslu.

Ráðstöfunartekjur

Heildartekjur heimilanna að frádregnum sköttum og vaxtagjöldum en að viðbættum svokölluðum millifærslutekjum, en það eru þeir fjármunir sem renna frá hinu opinbera til einstaklinga (s.s. bætur, styrkir o.þ.h.)

Reikningsár

Sjá Fjárlagaár, fjárhagsár.

Rekstrargrunnur

Greiðslugrunnur og rekstrargrunnur eru tvær mismunandi aðferðir við að færa bókhald ríkisins. Á rekstrargrunni eru tekjur færðar í bókhald þegar þeirra er aflað án tillits til þess hvenær þær innheimtast og gjöld þegar þau falla til, óháð því hvenær þau koma til greiðslu. Með rekstrargrunni fæst betri mæling á afkomu en þegar miðað er við greiðslugrunn. Á sama hátt fæst einnig skýrari mynd af eignum og skuldum, séu reikningsskil miðuð við rekstrargrunn.

Rekstrar- og neyslutilfærslur

Greiðslur frá hinu opinbera án þess að á móti komi vinnuframlag eða önnur gæði. Tilfærslur eru mikilvægt tæki til tekjujöfnunar.

Rekstrarverkefni

Verkefni ríkisins eru stundum flokkuð í þrennt: rekstur, rekstrar- og neyslutilfærslur og verklegar framkvæmdir. Rekstrarverkefnum er síðan skipt í tvo hópa. Annars vegar þau sem miða beinlínis að því að láta almenningi og fyrirtækjum í té þjónustu. Hins vegar þau sem beinast fyrst og fremst inn á við að ríkisrekstrinum sjálfum og þeir sem skipta við ríkið verða almennt lítið varir við. Læknisþjónusta er dæmi um það fyrrnefnda en ræsting á heilbrigðisstofnun dæmi um það síðarnefnda.

Ríkið

Venjulega er átt við þann hluta stjórnsýslunnar sem er á vegum ríkisstjórnarinnar og er sameiginleg fyrir allt landið en fyrir ríki þurfa að vera fjórar forsendur, fólk, land, lögbundið skipulag og stjórnarfarslegt sjálfstæði.

Ríkisábyrgð

Ríkisábyrgð kallast það þegar ríkissjóður tekst á hendur ábyrgð vegna lántöku einhvers aðila. Ábyrgðir eru tvenns konar: einföld ábyrgð og sjálfskuldarábyrgð. Munurinn er einkum sá að sé ábyrgð einföld, verður að ganga að skuldara til greiðslu skuldarinnar áður en krefja má ábyrgðarmann en sé um sjálfskuldarábyrgð að ræða, er heimilt að krefja ábyrgðarmann strax um greiðslu skuldarinnar við greiðslufall. Ábyrgð á lántökum sjóða í eigu ríkissjóðs, ríkisfyrirtækja og ríkisstofnana er eigandaábyrgð og er einföld ábyrgð nema annað sé sérstaklega tekið fram. Ríkisábyrgð er aðeins veitt sé til þess heimild í lögum.

Ríkiskassinn

Sjá undir ríkissjóður.

Ríkisreikningur

Ársreikningur ríkissjóðs nefnist ríkisreikningur og er honum ætlað að veita glögga mynd af rekstri og fjárhagslegri stöðu ríkissjóðs og stofnana ríkisins.

Ríkissjóður

Hinn eiginlegi ríkissjóður er sjóður sem notaður er til að halda utan um skatta og gjöld (tekjur), vegna umsýslu svokallaðs A-hluta í fjárreiðum ríkisins, og ráðstöfun þeirra (gjöld).

Rekstri á vegum ríkisins er skipt í fimm hluta: A-, B-, C-, D- og E-hluta með tilliti til þess hvernig aðild ríkisins er háttað. Sjá lög nr. 88/1997 um fjárreiður ríkisins.

Ríkisstarfsmaður

Starfsmaður sem er skipaður, settur eða ráðinn í þjónustu ríkisins til lengri tíma en eins mánaðar, án tillits til þess hvort og þá hvaða stéttarfélagi hann tilheyrir enda verði starf hans talið aðalstarf.

Safnliður

Sérstakur óskiptur liður í fjárlögum þar sem veitt er heimild til þess að ráðstafa fjármunum vegna nánar tilgreindra verkefna.

Samneysla

Laun, vara og þjónusta sem ríki og sveitarfélög nota til að reka skóla, sjúkrahús og annað það sem er á verksviði þeirra.

Samsköttun

Samsköttun felst í því að hjón, fólk í staðfestri samvist og fólk í sambúð skilar sameiginlegu skattframtali til skattyfirvalda og borgar sameiginlega skatta eftir því. Samsköttunin felur í sér gagnkvæma og fulla ábyrgð aðila á greiðslum þing- og sveitarsjóðsgjalda beggja aðila. Getur innheimtumaður ríkissjóðs gengið að hvorum aðila um sig til greiðslu þessum gjöldum fyrir þann tíma sem samsköttun varir. Hjá samsköttuðum einstaklingum færist allur óráðstafaður persónuafsláttur vegna tekjuársins til maka og kemur til lækkunar á reiknuðum tekjuskatti eða gengur til greiðslu á útsvari.

Sértekjur, þjónustutekjur

Tekjur ríkisstofnana af sölu vöru og þjónustu sem seld er á markaðsforsendum.

Sjálfbærnivísar

Sjálfbærnivísar eru mælikvarðar sem meta árangur á sviði sjálfbærni, það er árangur á sviði efnahags, samfélags og umhverfis. Global Reporting Initiative (GRI) eru dæmi um samtök sem hafa þróað alþjóðleg viðmið um gerð sjálfbærnivísa og hvernig þeim skuli miðlað á áreiðanlegan og gagnsæjan hátt í ársskýrslum.

Skattfrjálsar tekjur

Nokkrar undantekningar eru frá þeirri meginreglu að allar tekjur, hlunnindi og fríðindi séu skattskyldar tekjur. Er sérstaklega kveðið á um þær undantekningar í lögum. Ef það er ekki gert er meginreglan sú að um skattskyldar greiðslur sé að ræða í hvaða formi sem þær eru.

Barnabætur, vaxtabætur, sérstök vaxtaniðurgreiðsla og húsaleigubætur teljast ekki til skattskyldra tekna þeirra sem fá slíkar greiðslur. Þá telst ákvarðaður persónuafsláttur og sjómannaafsláttur ekki til skattskyldra tekna.

Skattleysismörk

Skattleysismörk eru mörk þeirra tekna þar sem starfsmenn fara að greiða skatt. Skattleysismörk eru fundin með því að deila skatthlutfallinu í mánaðarlegan persónuafslátt. Árið 2009 eru skattleysismörkin (á mánuði) 42.205 / 0,3720 = 113.454 kr. Skattleysismörkin miðast við tekjuskattsstofn. Fyrir launþega er hann tekjur að frádregnu lögbundnu iðgjaldi í lífeyrissjóð (4%) og allt að 4% til viðbótar í séreignarlífeyrissparnað en skattlagningu þessara frádráttarliða er frestað þar til lífeyririnn er greiddur út. Þá er hann skattlagður eins og aðrar tekjur. Frá árinu 2007 breytist persónuafslátturinn í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs.

Skattskylda

Skattskylda getur bæði verið almenn (ótakmörkuð) og takmörkuð. Sömu tekjur skattaðila geta verið skattskyldar í fleiri en einu ríki ef aðilinn ber almenna skattskyldu í einu ríki en takmarkaða skattskyldu í öðru. Tvísköttunarsamningar geta í þeim tilvikum skorið úr því hvar tekjurnar eru skattlagðar.

Skattstofa

Landinu er skipt í níu skattumdæmi með níu skattstofum, sem hver er með sinn skattstjóra. Skattstjórar annast álagningu opinberra gjalda og þjónustu við skattgreiðendur.

Skatttekjur

Tekjur ríkisins eru að stærstum hluta fengnar með innheimtu skatta á vöru og þjónustu. Skattar eru um 90% af tekjum ríkisins. Algengustu skattar eru tekjuskattur, virðisaukaskattur, tryggingagjald, fjármagnstekjuskattur, tollar og vöru- og aðflutningsgjöld af t.d. ökutækjum og bensíni, áfengisgjald og tóbaksgjald, þungaskattur og bifreiðagjöld.

Skattur

Skattur er gjald eða önnur álagning sem sett er á einstaklinga eða lögaðila (fyrirtæki og stofnunar) af ríkinu eða jafngildi ríkis (t.d. af ættbálk, aðskilnaðarhreyfingu, byltingarhreyfingu o.fl.). Skattur er reiknaður af eignum, tekjum o.fl.

Skattur af raforku og heitu vatni

Greiddur er í ríkissjóð sérstakur skattur af seldri raforku og heitu vatni. Skattskyldan nær til allra þeirra aðila sem selja raforku og heitt vatn á síðasta stigi viðskipta, þ.e. sölu til notenda. Notandi telst sá sem endurselur ekki raforku eða heitt vatn. Undanþegnir skattskyldu eru þeir sem selja raforku eða heitt vatn fyrir minna en 500.000 kr. á ári. 

Skilagjald

Gjaldið er lagt á innfluttar drykkjarvörur við tollafgreiðslu og drykkjarvörur sem framleiddar eru eða átappaðar hér á landi. Við sölu leggst þetta gjald á verðið. Þegar umbúðum sem bera skilagjald er komið í endurvinnslu, er þetta gjald greitt út.

Skilríki

Sjá undir rafræn skilríki.

Skuldatryggingarálag

Skuldatryggingarálag (e. credit default swap eða CDS) er mælikvarði á markaðskjör sem bjóðast á alþjóðlegum skuldabréfamörkuðum. Skuldatryggingarálag er áhættuálag ofan á grunnvexti skuldabréfa og mælir hvað það kostar fjárfesta að kaupa tryggingu gegn því að útgefandi skuldabréfs geti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Efir því sem áhættan er metin meiri fyrir kaupanda að skuldabréfi því hærra verður skuldatryggingarálagið. Skuldatryggingarálag er mælt í punktum og jafgilda 100 punktar einu prósenti.

Sparnaður heimilanna

Sá hluti af ráðstöfunartekjum sem ekki fer til neyslu. Sparnaðurinn getur verið neikvæður, þegar tekin eru lán til að bæta við tekjurnar. Allir launþegar spara þó eitthvað, jafnvel án þess að taka sjálfir ákvarðanir um það. Þannig er t.d. skylda að leggja sparnað í lífeyrissjóð sem greiðir út sparnaðinn þegar einstaklingurinn hættir að vinna og fer á eftirlaun.

Staðgreiðsla opinberra gjalda, staðgreiðsluskattar

Staðgreiðsluskattar eru bráðabirgðagreiðsla starfsmanna á tekjuskatti og útsvari. Skattur er reiknaður af launum með ákveðnu skatthlutfalli sem er ákveðinn hundraðshluti af launum. Hlutfallið er það sama á öllun landinu, en endanleg álagning tekjuskatts og útsvars fer fram í lok júli ár hvert en þá er m.a. er tekið tillit til hlutfalls útsvars í hverju sveitarfélagi.

Sveitarfélag

Sveitarfélög hafa landfræðileg mörk innan ríkisins, þau hafa sveitarstjórn sem íbúar sveitarfélagsins kjósa og sjálfstæða tekjustofna og sjálfsforræði á útgjöldum til að mæta kostnaði við framkvæmd verkefna sem eru á þeirra vegum.

Takmörkuð skattskylda

Einstaklingar sem búsettir eru erlendis en fá tekjur frá Íslandi eða eiga eignir á Íslandi geta borið takmarkaða skattskyldu á Íslandi. Í því felst skylda til að greiða skatt af tekjum sem uppruna eiga hér á landi, án tillits til þeirra tekna sem þeir kunna að afla annars staðar á sama tíma eða sama almanaksári. Takmörkuð skattskylda byggir þannig á tengslum tekna og eigna við Ísland. Skattskyldan nær til ákveðinna tekna svo sem launa fyrir starf, hvers konar lífeyrisgreiðslna, tekna af sjálfstæðu starfi eða atvinnurekstri og eignatekna, þ.m.t. söluhagnaðar fasteigna.

Í tvísköttunarsamningum sem gerðir hafa verið við önnur ríki til að koma í veg fyrir tvísköttun tekna er að finna ýmis ákvæði sem valda því að tekjur, sem án slíkra samninga væru skattskyldar hér á landi, eru það ekki. Á það einnig við um tekjur sem eiga uppruna sinn hér á landi og kæmu samkvæmt almennum reglum landsréttar til skattlagningar hér. Því er mikilvægt að skoða viðeigandi tvísköttunarsamninga áður er ákvarðað er hvort umræddar tekjur komi til skattlagningar á Íslandi.

Tekjujöfnuður ríkissjóðs

Afgangur ríkissjóðs þegar frá tekjum hans hafa verið dregin öll gjöld. Séu tekjurnar meiri en gjöldin er það nefnt tekjuafgangur en tekjuhalli séu gjöldin hærri. Sjá einnig afkoma ríkissjóðs.

Tekjuskattur

Tekjuskattur er skattur sem ríkið leggur á einstaklinga og fyrirtæki og er ákveðið hlutfall af þeim tekjum sem viðkomandi hefur aflað sér á skattaárinu. Einstaklingar geta dregið persónuafslátt sem er föst upphæð frá reiknuðum skatti. Útsvar er samsvarandi skattur á vegum sveitarfélags skattgreiðandans. Tekjuskattur er sá sami á alla en útsvar er misjafnt eftir sveitarfélögum.

Tekjutilfærslur

Sjá undir Rekstrar- og neyslutilfærslur.

Tollur

Gjald sem innheimt er af vöru samkvæmt tollskrá við innflutning.

Tryggingagjald

Gjald sem launagreiðendum ber að standa skil á til ríkisins og er það reiknað af heildarlaunum starfsmanna, þar á meðal endurgjaldi sem launagreiðendum ber að reikna sér fyrir vinnu sína við reksturinn. Tekjur af tryggingagjaldi eru markaðar tekjur, sjá markaðar tekjur.

Tvísköttunarsamningar

Til að koma í veg fyrir tvísköttun hafa ríki gert tvísköttunarsamninga sín á milli sem fela í sér reglur um það hvernig skattlagningarvaldi yfir tekjum og eignum er skipt milli samningsríkjanna. Einnig fjalla samningarnir um skyldu ríkjanna til skiptast á upplýsingum um skattamál í því skyni að koma í veg fyrir undanskot frá skattlagningu.

Umhverfismerki

Umhverfismerki er viðurkennt merki sem er ætlað að vera trygging kaupenda fyrir því að varan eða þjónustan skaði umhverfið minna en aðrar sambærilegar vörur eða þjónusta. Umhverfismerkt vara eða þjónusta uppfyllir tiltekin umhverfisskilyrði sem oftast ná til alls lífsferils vörunnar s.s. hráefnisvals, hönnunar, framleiðslu, flutninga, notkunar og förgunar.

Umhverfisskilyrði

Umhverfisskilyrði eru kröfur eða viðmið um umhverfisþætti vegna eiginleika þeirrar vöru eða þjónustu sem boðin er út og sett eru fram í útboðsgögnum. Umhverfisskilyrði eru sett fram sem lágmarksskilyrði eða matsviðmið.

Umhverfisstefna

Umhverfisstefna er ásetningur um verklag sem ráðast þarf í til að ná tilteknum markmiðum á sviði umhverfismála. Umhverfisstefna markar leiðina til framtíðarsýnar og er það sem stjórnendur innleiða með starfsfólki sínu.

Upplýsingaskiptasamningar

Upplýsingaskiptasamningar sem gerðir eru við önnur ríki fela í það í sér að skattyfirvöld geta óskað eftir upplýsingum um skattamál sem skipta máli fyrir framkvæmd og fullnustu skattalaga. 

Úrvinnslugjald

Úrvinnslugjald er lagt á tilteknar vörur til að standa undir kostnaði við úrvinnslu úrgangs er af þeim leiðir.

Útskattur

Útskattur er sá skattur sem seljandi vöru og þjónustu innheimtir af skattskyldri veltu sinni en skattskylda veltan er metin til verðs á skattverði. Skatturinn leggst á skattverðið og er 25,5% nema sérregla um 7% skatt eigi við.

Útsvar

Algengastir svonefndra beinna skatta, sem reiknast af tekjum einstaklinga, eru tekjuskattur sem rennur til ríkisins og útsvar sem rennur til sveitarfélaga. Hundraðshluti útsvars er ákvarðaður af sveitarfélögum. Á álagningarseðli kemur fram sveitarfélag og hundraðshluti útsvars. Frá reiknuðum tekjuskatti og útsvari dregst persónuafsláttur og eftir atvikum sjómannaafsláttur. Tekjuskattur einstaklinga og útsvar er að miklu leyti innheimt strax við útborgun launa, þ.e. í staðgreiðslu, og er launagreiðandi ábyrgur fyrir að standa skil á þeim sköttum sem hann hefur þannig dregið af launum. Beinir skattar eru gerðir upp við álagningu sem fram fer í lok júlí ár hvert vegna tekna ársins á undan og eigna í lok þess árs. Þeir eru nefndir beinir skattar því greiðandinn er sá hinn sami og ber skattbyrðina.

Útvistun

Með útvistun er átt við það þegar viðvarandi rekstrarverkefni sem ríkið hefur með höndum er boðið út á einkamarkaði í stað þess að það sinni því sjálft með eigin mannafla og aðstöðu.

Útvistunarstefna

Stefna ríkisstjórnarinnar um að öll ráðuneyti og stofnanir ríkisins fari með skipulegum hætti yfir þau verkefni sem undir þau heyra og meti hvort þau teljist heppileg til útvistunar.

Varanlegir rekstrarfjármunir

Eign sem notuð er reglulega eða samfellt í rekstri í lengri tíma en eitt ár, svo sem húsnæði og vélar.

Veltuskattar

Veltuskattar eru skattar sem lagðir eru á vöru og þjónustu og greitt er fyrir með neyslu og veltu á tiltekinni vöru eða þjónustu. Skattar á vöru og þjónustu skiptast í grófum dráttum í tvennt:

 1. Skatta á viðskipti með vöru og þjónustu, svo sem virðisaukaskatt, vörugjöld og aðflutningsgjöld
 2. Neyslu- og leyfisgjöld, og svo sem bifreiðagjald, þungaskatt og ýmis leyfis- og skráningar- og eftirlitsgjöld.

Verðbólga

Hækkun á verði á vöru og þjónustu. Algengasti mælikvarði á verðbólgu er vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands mælir mánaðarlega. Verðbólga felur í sér að verðgildi peninga minnkar, þ.e.a.s. minna magn vöru og þjónustu fæst fyrir hverja krónu. Venjulegast er rætt um verðbólgu á ársgrundvelli en það þýðir að hækkun verðlags milli tveggja mánaða er yfirfærð á þá breytingu á vísitölu sem mánaðarhækkunin hefði í heilt ár. Þegar verðbólga er breytileg er stundum talað um verðbólgu milli ársmeðaltala annars vegar en verðbólgu frá upphafi til loka árs hins vegar. Þegar verðbólga breytist lítið er enginn munur á þessu.

Verðbólgumarkmið

Verðbólgumarkmið er markmið sem Seðlabanki Íslands setur. Verðbólgumarkmið bankans er 2½% verðbólga á 12 mánuðum, mæld í vísitölu neysluverðs en verðbólgan má þó víkja 1½% frá þessu markmiði til beggja átta.

Viðbótarauðlegðarskattur

Viðbótarauðlegðarskattur er lagður á skattstofn sem er mismunur á nafnverði og raunvirði hlutabréfa í eigu framteljanda í lok árs 2009, 2010, 2011 og 2012 miðað við stöðu félags samkvæmt skattframtali þess 2010, 2011, 2012 og 2013. Viðbótarauðlegðarskattur er lagður á eign umfram viðmiðunarmörk auðlegðarskatts.

Viðbótarauðlegðarskattur er 1,25% við álagningu gjaldárið 2011 og 1,5% við álagningu gjaldárið 2012.

Við álagningu gjaldárin 2013 og 2014 er viðbótarauðlegðarskattur 1,5% af skattstofni á bilinu 75.000.000 kr. að 150.000.000 kr. hjá einhleypum og á bilinu 100.000.000 kr. að 200.000.000 kr. hjá hjónum og samsköttuðum, en 2% af skattstofni yfir þessum mörkum.

Viðfangsefni í fjárlögum

Viðfangsefni er undirliður fjárlagaliðar og sýnir hvernig hann skiptist á einstök verkefni. Undir fjármála- og efnahagsráðuneyti, aðalskrifstofu (fjárlaganúmer: 09-101) eru til dæmis tvö viðfangssefni, 1.01 Yfirstjórn og 6.01 Tæki og búnaður.

Virðisaukaskattur

Virðisaukaskattur er almennur neysluskattur sem innheimtur er af innlendum viðskiptum á öllum stigum. Hann er einnig innheimtur við innflutning vöru og þjónustu. Almennt þrep í virðisaukaskatti er 24,5%. Þó eru innheimt 7% af eftirtalinni vöru og þjónustu:

 • Útleigu hótel- og gistiherbergja og annarri gistiþjónustu
 • Afnotagjöldum hljóðvarps- og sjónvarpsstöðva
 • Sölu tímarita, dagblaða og landsmála- og héraðsfréttablaða
 • Sölu bóka, jafnt frumsaminna sem þýddra
 • Sölu á heitu vatni, rafmagni og olíu til hitunar húsa og laugarvatns
 • Sölu á flestum matvælum, s.s. kjöti, nýlenduvörum, morgunkorni o.fl. vörum til manneldis
 • Aðgangi að vegamannvirkjum
 • Sölu á geisladiskum, hljómplötum, segulböndum og öðrum sambærilegum miðlum með tónlist en ekki með mynd

Sum þjónusta ber ekki virðisaukaskatt svo sem heilbrigðisþjónusta.

Vistvæn innkaup

Vistvæn innkaup felast í því að velja þá vöru eða þjónustu sem er síður skaðleg umhverfinu eða heilsu manna og ber sama eða lægri líftímakostnað samanborið við aðrar vörur og þjónustu sem uppfylla sömu þörf.

Vörsluskattar

Skattar sem lagðir eru á vöru og þjónustu og söluaðila ber að innheimta við sölu á hinni skattskyldu vöru eða þjónustu og skila til ríkissjóðs. Það er einkenni vörsluskatta að refsivert er að gera ekki skil á þeim til ríkissjóðs. Vörsluskattar eru staðgreiðsla opinberra gjalda, tryggingagjald, virðisaukaskattur, vörugjald, áfengisgjald, staðgreiðsla skatts af fjármagnstekjum og skilagjald af einnota umbúðum fyrir drykkjarvörur.

Vörugjald

Vörugjald er gjald sem leggst á vörur við innflutning eða innanlandsframleiðslu. Annars vegar er lagt á svokallað magngjald sem er þá í samræmi við það magn af vöru sem er framleitt eða flutt inn. Hins vegar er til svokallað verðgjald sem er þá í réttu hlutfalli við verðmæti vörunnar.

Þinggjöld

Gjöld til ríkissjóðs sem lögð eru á einu sinni á miðju ári, þ.e. tekjuskattur, gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra og álagt tryggingagjald.

Þjóðartekjur - þjóðarframleiðsla

Þjóðartekjur eða þjóðarframleiðsla mælir verðmæti allrar vöru og þjónustu sem Íslendingar framleiða hvort sem það er framleitt hér á landi eða erlendis. Berið það saman við landsframleiðslu sem er allt það sem framleitt er hérlendis burtséð frá því hvort það er í eigu íslenskra eða erlendra aðila.

Þjóðarútgjöld

Þjóðarútgjöld eru samtala fyrir útgjöld samfélagsins sem ráðstafað er innanlands á tilteknu tímabili. Þetta er summan af einkaneyslu, samneyslu, fjárfestingu og birgðabreytingu.

Þjóðhagslegur sparnaður

Vergur þjóðhagslegur sparnaður er verg þjóðarframleiðsla að frádreginni einkaneyslu og samneyslu .

Þjóðhagsreikningar

Þjóðhagsreikningar eru nokkurs konar bókhald fyrir þjóðarbúskapinn í heild. Hagstofa Íslands annast gerð þjóðhagsreikninga. Þeir eru bæði gerðir fyrir árið í heild og ársfjórðunga. Þjóðhagsreikninga er hægt að vinna með mismunandi aðferðum en svokallað ráðstöfunaruppgjör er algengast. Aðrar aðferðir eru framleiðsluuppgjör og tekjuskiptingaruppgjör.

Þjóðhagsspá

Þjóðhagsspá er spá um líklega þróun helstu hagstærða svo sem landsframleiðslu, verðbólgu, atvinnuleysis, tekna og gjalda ríkis og sveitarfélaga og ýmissa þátta sem stjórnvöldum eru mikilvægir til þess að undirbúa ákvarðanir sínar. Þjóðhagsspár eru gerðar á grundvelli mikils magns hagstærða sem safnað er reglulega. Við þær eru gjarna notuð flókin reiknilíkön þar sem reynt er að líkja eftir hagkerfinu.

Þjónustugjöld

Þjónustugjöld eru gjöld sem stofnanir eða ríkisfyrirtæki innheimta af þeim sem nota sér þjónustu þeirra. Þau verða ekki innheimt án heimildar í lögum og þá eingöngu til að standa straum af þeim kostnaði sem lagaheimildin mælir fyrir um. Gjaldið má ekki vera hærra en sem nemur þeim kostnaði sem almennt hlýst af því að veita þá þjónustu sem gjaldtökuheimildin nær til. Ráðstöfun þjónustugjalda er bundin með lögum þannig að einungis er heimilt að verja slíkum gjöldum til að greiða þá kostnaðarliði sem heimilt er að leggja til grundvallar við útreikning á fjárhæð gjaldanna.